
Útvarpsmaðurinn Heimir Karlsson kom í heimsókn til okkar í Seinni níu en hann hefur spilað golf um árabil. Heimir náði þeim einstaka árangri að verða bæði Íslandsmeistari í fótbolta og handbolta.
Í seinni tíð hefur hann einbeitt sér að golfinu og náði best rétt undir 10 í forgjöf. Í dag er Heimir með um 16 í forgjöf og kveðst vera sterkastur í innáhöggunum. Hann er í Golfklúbbi Reykjavíkur og er einnig nýlega skráður í Golfklúbb Öndverðarness.
Í þættinum er komið víða við. Heimir segir okkur frá því hvernig hann fór tvívegis holu í höggi. Sömuleiðis segir hann okkur frá því þegar hann vann bæði Colin Montgomerie og Anniku Sörenstam á einni holu í golfi.
Heimir kemur með topplista yfir golfholur með bestu teigstæðin og velur draumahollið. Frábær þáttur á léttum nótum eins og alltaf!