Edda Björgvinsdóttir, leikari, leikstjóri, skemmtikraftur, fyrirlesari, stjórnendaþjálfari og gersemi þjóðarinnar. Edda hefur líka skrifað meistararitgerð um húmor í stjórnun ásamt að vera með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði og sálgæslu frá Háskóla Íslands.Nýr þáttur af hlaðvarpinu Forysta og samskipti er kominn í loftið en umsjónarmaður er Sigurður Ragnarsson forseti Viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri og stjórnenda- og forystuþjálfari. Gestur Sigurðar í þættinum er Edda Björgvinsdóttir, leikari, leikstjóri, skemmtikraftur, fyrirlesari, stjórnendaþjálfari og einn okkar allra mesti gleðigjafi. Edda er líka með meistaragráðu í menningarstjórnun en meistararitgerð hennar var um húmor í stjórnun. Edda er einnig með diplómagráðu í jákvæðri sálfræði og sálgæslu frá Háskóla Íslands. Í þættinum er sérstaklega farið yfir mikilvægi húmors á vinnustöðum og jákvæð áhrif hans á ótal sviðum. Húmor er mikilvægur í öllum kringumstæðum og komið er inná marga þætti eins og húmor í krísuástandi, mismunandi tegund húmors og hvernig stjórnendur og leiðtogar geta beitt sem og tileinkað sér húmor í vinnunni.Edda segir okkur einnig frá ákveðinni tegund fólks sem hún kallar ,,mengunarvalda“ á vinnustöðum og tekur í því sambandi m.a. dæmi um slúður og mannorðsmorð. Þessu tengt segir Edda að það ættu að vera reglur á öllum vinnustöðum, eins og er á mörgum leikskólum, að þú takir ekki með þér í vinnuna vandræði úr einkalífinu, og ekki heldur leiðinlegustu fréttirnar úr fjölmiðlum. Edda segir þetta stórt vandamál í íslensku atvinnulífi og lýsir vel hvernig hægt er að taka á þessu. Edda ræðir líka um ,,gleðibankann“ og gefur góð ráð hvernig við getum safnað í hann. Síðan fjallar Edda um hvernig vænlegt er að velja stjórnendur og leiðtoga og þar er tilfinningagreind lykilatriði. Margt fleira fléttast við samræðurnar, þ.á.m. sálgæsla og jákvæð sálfræði. Einnig segir Edda okkur frá ,,freka kallinum“, sem er ekki bara karlkyns heldur hvaða einstaklingur sem er sem skortir tilfinningagreind, og er með yfirgang og valtar yfir allt og alla.Síðan er ekki hægt að setjast niður með Eddu án þess að komið sé inná helstu perlur hennar í gegnum tíðina. Hvað finnst Eddu fyndið? Hver eru hennar uppáhaldshlutverk, þættir og kvikmyndir? Hversu líkar eru Edda og Stella í orlofi? Hvað segir Edda um Felix og Klöru?
Show more...